Flutningaskipið Winter Bay flutti í sumar um tvö þúsund tonn af frystum hvalaafurðum frá hvalstöð Hvals hf. í Hvalfirði frá Hafnarfirði til Osaka í Japan. Sú sigling vakti mikla athygli á alþjóða vísu þar sem þetta var í fyrsta sinn sem siglt var með frosnar sjávarafurðir um norðausturleiðina svokölluðu en svo nefnist siglingaleiðin úr Norður Atlantsahafi norður fyrir Rússland og inn í norðanvert Kyrrahaf.
Fram kemur á vef Skessuhorns að nú hafi áhöfn Winter Bay endurtekið leikinn því skipið er nú rétt ókomið til St. Pétursborgar í Rússlandi. Eftir að hafa skilað hvalkjötsfarminum á áfangastað í lok ágúst var haldið til Kamsjatka-skaga í Austur-Rússlandi. Þar var farmi af frosnum fiski skipað um borð. Winter Bay sigldi síðan aftur norður fyrir Rússland um norðausturleiðina en í þetta sinn í vesturátt. „Ég náði loksins í útgerðarmann Winter Bay. Hann sagði að skipið væri væntanlegt til St. Pétursborgar í Rússlandi um næstu helgi, með farm af fiski frá Kamchatka,“ staðfesti Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. við Skessuhorn.