Vísir í Grindavík mun nota nýjar, umhverfisvænar neytendapakkningar fyrir íslenskan fisk á Bandaríkjamarkaði, nái vinningstillögur í Hnakkaþoni HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins, fram að ganga, að því er fram kemur í frétt frá Háskólanum í Reykjavík.

Úrslit keppninnar voru kynnt um helgina. Sigurliðið skipa nemendur í fjármálaverkfræði og viðskiptafræði, þeir Bjarki Þór Friðleifsson, Fannar Örn Arnarsson, Jóhannes Hilmarsson, Ómar Sindri Jóhannsson og Sigurður Guðmundsson. Hópurinn mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Vinningstillagan Hnakkaþon 2017
Vinningstillagan Hnakkaþon 2017
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Úrlausn þeirra bar titilinn „Wild Icelandic Cod“ og fólst í hönnun nýrra neytendapakkninga til að auðvelda Vísi að selja ferskan fisk beint á Bandaríkjamarkað. Umbúðirnar leggja áherslu á ferskleika, gæði, umhverfisvernd og sögu Vísis en innihalda líka einfaldar uppskriftir, sem henta meðvituðum neytendum í nútímasamfélagi. Einnig benti liðið á kosti þess að nota umhverfisvæna pappakassa í stað hinna hefðbundnu frauðplastkassa í flutningum á ferskum fiski. Pappakassarnir eru ódýrari, fyrirferðarminni og taka mun minna pláss í flutningum.