,,Iceland Responsible Fisheries“ verkefnið var kynnt á sjávarútvegssýningunni í Boston sem haldin var dagana 20.-22.mars. Ein mikilvægasta fréttin frá sýningunni var yfirlýsing Walmart um breytingu á innkaupastefnu sinni á sjávarafurðum, að því er segir í frétt frá Íslandsstofu.

Breytingarnar fela m.a. í sér að Walmart mun byggja kröfur sínar um innkaup á sjávarafurðum m.t.t. ábyrgra veiða á þeim viðmiðunum eða stöðlum sem settar eru í FAO leiðbeiningum, en um er að ræða faggilta vottun þriðja aðila. Þar með er sú vottun sem þorskveiðar Íslendinga hefur hlotið, tekin góð og gild hjá fyrirtækinu og greiðir það götu íslenskra fyrirtækja í sölu á sjávarafurðum. Þetta er mikilvægur áfangi þar sem um er að ræða leiðandi verslunarkeðju í smásölu í Bandaríkjunum. Alaska hefur einnig fetað í fótspor Íslendinga og á sjávarútvegssýningunni var tilkynnt að laxveiðar við Alaska hefðu hlotið vottun skv. sambærilegu kerfi og þorskveiðar Íslendinga.