Gæði íslensks fisks og vottun á þorskveiðum hafa skipt sköpum í söluaukningu hjá bresku verslunarkeðjunni Waitrose. Íslenska vottunarleiðin er að vinna sér sess og breskar matvöruverslanakeðjur fagna því framtaki sem unnið er undir merkjum Iceland Responsible Fisheries, IRF.

Þetta kemur fram í ítarlegri frétt á fréttamiðlinum Seafoodnews.com , þar sem fjallað er um kynningarfund IRF á sjávarútvegssýningunni í Brussel.

Waitrose hefur um árabil haft íslenskan fisk á boðstólum í verslunum sínum hefur skapað sér skýra stefnu í ábyrgri nýtingu sjávarauðlinda. Quentin Clark yfirmaður hjá Waitrose fjallaði á fundinum um mikilvægi sjálfbærra fiskveiða, stefnu fyrirtækisins í þeim efnum og gildi vottunar á íslenskum fiskveiðum. Quentin sagði gæðin skipta höfuðmáli í innkaupum á fiski – það væri það sem skipti neytendur mestu máli – og því hafi Waitrose ákveðið að kaupa ferska ýsu og þorsk frá Íslandi eingöngu. Vottun þriðja aðila og sú leið sem Íslendingar hafa farið í að staðfesta ábyrgar fiskveiðar, segir Quentin uppfylla strangar kröfur fyrirtækisins og þeir hafi ákveðið að fara í kynningarherferð á breska markaðinum í kjölfar vottunar á þorskveiðum Íslendinga. Þessi kynning skilaði umtalsverðri aukningu í sölu og sagði hann gæði íslenska fisksins grundvöllinn fyrir góðum árangri í sölu.