Á fyrsta fjórðungi fiskveiðiársins var 408 tonnum landað sem VS-afla samanborið við 386 tonn á fyrsta fjórðungi síðasta fiskveiðiárs. Stærstur hluti af andvirði aflans greiðist í Verkefnasjóð sjávarútvegsins (VS-afli), að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Þrátt fyrir heildaraukningu á VS-afla er minna landað af þorski sem VS-afla en á sama tíma í fyrra eða 250 tonnum en á sama tíma á síðasta fiskveiðiári voru það um 344 tonn. Þetta er rúmlega 27% samdráttur. Hins vegar hefur orðið mikil aukning í ýsu. Nú hefur 72 tonnum verið landað sem VS-afla en á sama tíma í fyrra voru það aðeins 10 tonn. Afli sem ekki er skráður til aflamarks hlutaðeigandi fiskiskipa vegna svokallaðrar línuívilnunar var á fyrsta fjórðungi fiskveiðiársins 822 tonn en á sama tíma í fyrra 719 tonn. Þetta er rúmlega 14,3% aukning. Helst er að merkja aukningu í þorski eða 393 tonn samanborið við 293 tonn á sama tíma í fyrra.