Landaður VS-afli (áður Hafró-afli) var 2.915 tonn á síðasta fiskveiðiári samanborið við 2.525 tonn fiskveiðiárið á undan. Mestur varð VS-aflinn fiskveiðiárin 2008/09 og 2009/10 eða um 4.300 tonnum. Þrátt fyrir talsverðan samdrátt á undanförnum árum var aflinn talsvert minni en nú á fiskveiðiárunum frá 2001/02 til 2006/07 eða í kringum 2.000 tonn.
Fyrir þá sem ekki vita hvað átt er við með VS-afla er þessi skýring gefin á vef Fiskistofu: Við löndun afla er skipstjóra heimilt að ákveða að hluti aflans reiknist ekki til aflamarks skipsins, heldur teljist svonefndur VS-afli, og rennur þá stærsti hluti andvirðis aflans í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Þessi heimild takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem viðkomandi skip veiðir á fiskveiðiárinu og er bundin ákveðnum skilyrðum.
Þegar horft er til tegunda sem landað er sem VS-afla þá hefur lang mestu verið landað af þorski í gegnum tíðina en undanfarin ár hefur hlutur þorsks í VS-afla þó farið minnkandi. Þannig var hlutur þorsks rúmlega 90% á árinum 2007/08 og 2008/09 en á síðasta fiskveiðiári var hlutur hans kominn niður í 46,3% eða 1.351 tonn af 2.915 tonna heildarafla sem landaður var í Verkefnasjóðinn.
Til samanburðar var hlutur ýsu á tímabilinu frá 2005/06 til 2009/10 innan við 5% af öllum VS-afla. Síðan hefur hlutur ýsu aukist jafnt og þétt og var kominn í rúm 30% á síðasta fiskveiðiári.
Sjá nánar á vef Fiskistofu.