Í lok júlí hafði 2.703 tonnum verið landað sem Vs-afla samanborið við 3.932 tonn á sama tíma í fyrra. Hér er um að ræða afla sem skip geta landa utan aflamarks en stærstur hluti af andvirði hans rennur í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Þorskur sem landað var sem Vs-afla nam 1.938 tonnum samanborið við 3.183 á síðasta fiskveiðiári. Þetta er um 40% samdráttur.

Þessar upplýsingar koma fram á vef Fiskistofu. Þar kemur ennfremur fram að afli sem ekki er skráður til aflamarks hlutaðeigandi fiskiskipa vegna svonefndrar línuívilnunar var kominn í  4.822 tonn í lok júlí og er það aukning um 675 tonn frá fyrra ári. Liggur  aukningin fyrst og fremst í  þorski.

Undirmálsafli utan aflamarks helst svipaður á milli ára, eða 2.100 til 2.200 tonn. Undirmálsafli er heldur  minni í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári samanborið við fyrra ár en aukning er í ýsu.