Prófessor Doug Butterworth frá háskólanum í Cape Town í Suður Afríku, flutti aðalfyrirlestur dagsins á ársfundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem haldinn er í Reykjavík þessa vikuna.
Í máli Butterworths kom fram að árið 2008 hefðu orðið þáttaskil í vottun sjávarfangs án þess að það hefði almennt verið stjórnvöldum vel ljóst. Hann sagði að vottunarstarfið, þar sem Marine Stewardship Council (MSC) væri fyrirferðarmikið, væri orðið veruleg byrði sérfræðingum á þessu sviði, og að hann teldi e.t.v. ekki skynsamlega ráðstöfun á takmörkuðum tíma þeirra og sérfræðiþekkingu, þótt vottun hefði almennt stuðlað að betri stjórnun veiða. Í því sambandi vísaði hann til þess að vottunarþátturinn tæki árlega 30-40 ársverk hjá mjög sérhæfðu fólki fyrir vottun á aðeins 10% fiskistofna.
Erindi Butterworths fjallaði annars um óvissu sem við er að glíma í fiskveiðiráðgjöf og vandasamt verkefni fiskifræðinga að veita árangursríka ráðgjöf á grundvelli misgóðra upplýsinga um ástand fiskistofna. Frumathugun Butterworths og samstarfsfólks á veiðistjórn síðustu áratuga bendir til að með stýringu veiða á grundvelli einfaldra aflareglna, hefði mátt ná allt eins eða betri árangri hvað viðkemur heildarafla og stöðugleika í veiði og ekki síst m.t.t. stærðar hrygningarstofns en með þeim aðferðum sem beitt væri.
Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.