Vottunarsamtökin MSC hafa greint frá því að um áramótin verði sjálfbærnivottun kolmunna og norsk-íslenskrar síldar afturkölluð.

Afturköllunin nær til veiða Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja og reyndar til veiða Bretlands einnig því nú er Bretland orðið sjálfstætt strandríki eftir úrsögn úr Evrópusambandinu.

Ástæðan er sú að strandríkin hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu veiðanna, þannig að árum saman hafa þessir stofnar verið veiddir töluvert umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

MSC-vottun makrílveiða var afturkölluð á síðasta ári af sömu ástæðu.

Virða ekki línuna

Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC, hvetur strandríkin til að komast að samkomulagi um þessar veiðar

„Flökkustofnar eins og Atlantshafs-síldin og kolmunni fara ekkert eftir lögsögu einstakra ríkja, þannig að við þurfum alþjóðlega samninga til þess að halda utan um heilu vistkerfin með vísindalegum og sveigjanlegum hætti, frekar en að fiskveiðiauðlindum sé stýrt út frá hagsmunum ríkjanna,“ segir hann.

Í tvö ár hefur legið fyrir að vottunin muni falla niður núna um áramótin.

Fréttavefurinn Undercurrent News segir að greinin muni í kjölfar afturköllunar finna fyrir auknum þrýstingi, en ein áhrifin verði væntanlega þau að verð á öðrum síldarstofnum muni hækka.

Hér á landi gæti það þýtt verðhækkun erlendis á íslensku síldinni. Hafrannsóknastofnun segir líkur á því að sá stofn muni stækka á næstu árum, en óvissa sé þó áfram vegna þrálátrar sýkingar í stofninum.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 3. desember sl.