Í nýrri skýrsla frá umhverfissamtökunum Oceana er fullyrt að mikill hluti af þeim fiski sem seldur er í veitingahúsum í Brussel sé rangt merktur, þar á meðal fiskur sem seldur er í kaffiteríunni í húsi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á vef SeafoodSource .
Katólski háskólinn í Leuven kannaði þessi mál fyrir Oceana. Tekin voru 280 sýni og í ljós kom að 38% þeirra voru ekki rétt merkt. Sýnin komu frá 150 veitingahúsum og matsölustöðum í stofnunum ESB, þeirra á meðal eru kaffiteríur fyrir Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB.
Með DNA rannsóknum var sýnt fram á víðtæk vörusvik og dyrnar eru opnar fyrir sölu á afurðum úr fiski sem veiddur er ólöglega, segir talsmaður Oceana. ESB þurfi að taka til í eigin ranni og taka ábyrga afstöðu með því að krefjast rekjanleika og réttrar merkingar sjávarafurða.
Í mörgum tilvikum reyndist fiskur, sem seldur var sem þorskur eða koli á veitingastöðum fyrir 40 evrur (5.700 ISK), vera pangasius sem er að sjálfsögðu mun ódýrari fisktegund. Þá kom í ljós að 95% af fiskréttum sem seldir voru sem bláuggatúnfiskur voru í raun réttir sem eldaðir voru úr ódýrari tegundum, svo sem gula túnfiski.