Undanfarnar vikur hefur staðið yfir vorrall Hafrannsóknarstofnunar. Vestmannaeyjaskipin Breki VE og Þórunn Sveinsdóttir VE tóku þátt í rallinu en því lauk hjá Vinnslustöðvarskipunum tveimur um helgina.

Frá þessu segir á vef Vinnslustöðvarinnar þar sem rætt er við skipstjórana Magnús Ríkarðsson og Óskar Þór Kristjánsson. Fram kemur að vorrallið hafi farið fram með sama hætti frá því árið 1985. Þannig fáist sambærilegar upplýsingar um stofnstærð, aldurssamsetningu, fæðu, ástand og útbreiðslu helstu nytjastofna við landið. Jafnframt sé fylgst með hitastigi sjávar og ýmsu fleiru, svo sem mengandi efnum í sjávarfangi.

Haft er eftir Magnúsi Ríkharðssyni að heilt yfir hafi allt gengið ljómandi vel. 

Foráttubræla og síðan algjör blíða

,,Það reyndar byrjaði með foráttu brælu. Þess vegna var ákveðið að byrja fyrir austan. Venjulega byrjum við á að fara vestur úr. En núna náðum við að skipta og fara norðar og taka stöðvar fyrir Þórunni. Svo var algjör blíða seinni hlutann. Eftir að við komum vestur úr,“ segir Magnús á vsv.is. Reyndar hafi þeir bætt við sig 19 stöðvum vegna seinkunar á komu nýja hafrannsóknaskipsins, Þórunnar Þórðardóttur til landsins. Þetta hafi því verið 173 stöðvar í allt og þeir hafi á sautján dögum farið alls 2.490 sjómílur sem sé lengri vega vegalengd en frá Eyjum til Tenerife.

Í gær var ráðgert að Breki færi aftur til veiða um hádegisbil í dag.

Reddaði túrnum í Hvalbakshallinu, á Breiðdalsgrunni og í Berufjarðarál

Óskar Þór Kristjánsson var í brúnni á Þórunni í rallinu og segir það hafa gengið vel þótt leiðindaveður hafi verið í byrjun. „Svo var orðið ágætis veður sunnan við Neskaupstað. Við fórum norður með landinu. Svo var bætt við okkur 19 stöðvum. Við náðum alveg á Kolbeinseyjarhrygginn og fórum svo djúpslóðina til baka,“ er haft eftir Óskari. Skítaveður hafi verið úti fyrir Húsavík.

,,Það reyndar reddaðist þar sem við vorum í skjóli. Við lönduðum svo á Neskaupstað á mánudaginn fyrir viku. Svo var farið suður úr á Þórsbankann. Þar var rólegt. Það sem reddaði túrnum var veiðin í Hvalbakshallinu, á Breiðdalsgrunni og í Berufjarðarál. Það var megnið í stöðvunum hans Magga. Við fengum sirka 50 kör á stöðvunum hans. Ég vil bara nota þetta tækifæri og þakka Magga kærlega fyrir skiptin,“ rekur Óskar á vef Vinnslustöðvarinnar þar sem nánar má lesa um málið.