„Það væri vont högg,“ segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, um áhrif þess ef svo illa færi að hætta þyrfti rekstri járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga, verði af boðuðum verndartollum Evrópusambandsins á kísilmálm og járnblendi frá Íslandi og öðrum löndum utan ESB.

Að sögn Gunnars stafar um fjórðungur af tekjum Grundartangahafnar frá umsvifum járnblendiverksmiðjunnar. Verksmiðjan er næst stærsti viðskiptavinur hafnarinnar á eftir álveri Norðuráls sem stendur fyrir um það bil 60 prósentum af tekjunum.

Vongóð en óttast hið versta

Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Mynd/Aðsend
Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Mynd/Aðsend

„Þetta er áhyggjuefni fyrir svæðið og framtíðarsýnina á Grundartanga,“ segir Gunnar um þann möguleika að umsvif járnblendiverksmiðjunnar dragist saman eða jafnvel hverfi. Það sé ýmislegt spennandi í gangi sem tengist framtíð Elkem á staðnum.

„Það er til dæmis í gangi vinna hjá þróunarfélaginu á Grundartanga að nýta affallsvarmann og heita loftið sem kemur úr ofnum verksmiðjunnar,“ segir Gunnar.

Óljóst er hvort Íslandi takist að fá sér skotið undan nýja tollinum og hafa stjórnvöld hér sagt að þau telji hann brjóta í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. „Eins og er erum við vongóð um að þetta leysist en óttumst hið versta,“ segir Gunnar.

Gengur ljómandi vel

Þótt blikur séu á lofti hvað þetta varðar segir Gunnar rekstur Faxaflóahafna ganga ljómandi vel. Nú séu í gangi þrjú framkvæmdaverkefni. Verið sé að reisa farþegamiðstöð á Skarfabakka fyrir skemmtiferðaskipin. Hún sé að verða fokheld. Á Akranesi sé lenging aðalvarnargarðsins að komast á lokaspöl.

„Svo erum við að útbúa nýtt farmsvæði á Grundartanga. Það verður upplýst og malbikað til þess að mæta nýjum kröfum Norðuráls sem er að framleiða dýrari og viðkvæmari afurðir en áður og þarf að geyma þær áður en þær fara í skip,“ segir Gunnar.

Endurskoðun í biðstöðu

Fyrr í sumar kvaðst ríkisstjórnin mundu endurskoða ný gjöld á skemmtiferðaskip sem samþykkt voru af Alþingi í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þar er annars vegar um að ræða nnviðagjald sem tók gildi um síðustu áramót og hins vegar afnám tollfrelsis á vöru- og þjónustukaup skemmtiferðaskipa sem eru í siglingum umhverfis Ísland.

„Það voru yfirlýsingar um að þetta væri til endurskoðunar en við höfum ekki séð neinar efndir,“ svarar Gunnar aðspurður um stöðu þessa máls.

„Innviðagjald er gjald sem þingið lagði á og ef ráðherra vill afnema það eða lækka þá þarf að fara með það í gegnum þingið,“ segir Gunnar sem kveðst engar spurnir hafa haft af stöðu málsins. Erlendu skipafélögin séu hins vegar jákvæðari eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og menn hafi trú á því að haldið verði áfram með málið er þing komi aftur saman í haust.