Snæfellsbær fær engan fiskveiðikvóta frá matvælaráðuneytinu fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 og er bæjarstjórnin þar afar óánægð með þá niðurstöðu.
„Bæjarstjórn lýsir yfir miklum vonbrigðum með það að verið sé að skerða byggðakvótann í Snæfellsbæ á stórfelldan hátt. Snæfellsbær er sjávarútvegssamfélag þar sem fiskveiðar eru í gangi allt árið um kring. Bæjarstjórn þykir mjög sérstakt að byggðakvóta sé úthlutað til byggða þar sem sjávarútvegur er lítill sem enginn, en Snæfellsbær, þar sem sjávarútvegur er stundaður á heilsársgrundvelli, fær engu úthlutað,“ segir í bókun bæjarstjórnarinnar.
Þá segir í bókuninni að fiskveiðiárið 2013/2014 hafi 735 tonnum verið úthlutað til Snæfellsbæjar. „En á fiskveiðiárinu 2024/ 2025 er ekki einu einasta tonni úthlutað til sveitarfélagsins og er ívilnunin komin niður í 800 tonn í þorski úr nokkur þúsundum tonna.“