„Ég er bjartsýnn að eðlisfari og alltaf til í að takast á við áskoranir og hafði alltaf vonir um að þetta verkefni gæti gengið upp, en núna er sú von orðin að vissu,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, framkvæmdastjóri Grænafls, sem vinnur að orkuskiptum í smábátaflotanum.

Kolbeinn hefur síðastliðin misseri unnið að orkuskiptaverkefninu og aflað því samstarfsaðila í Suður-Kóreu og hér heima á Íslandi. Í gegnum samstarf við Korean Maritime Institute (KMI), sem er opinber stofnun í sjávarútvegi þar ytra, hefur nú verið valið úr hópi áhugasamra fyrirtækja í Suður-Kóreu til að taka þátt í verkefninu.

Fulltrúar KMI, og frá Research Institute of Medium & Small Shipbuilding (RIMS) og frá þeim fjórum fyrirtækjum þaðan sem taka þátt hér í verkefninu voru á Íslandi fyrr í mánuðinum. Hópurinn heimsótti meðal annars Siglufjörð þar sem er heimahöfn strandveiðibátsins Oddverja sem er fyrsti báturinn sem breyta á þannig að hann gangi fyrir rafmagni.

Breytingar á næsta ári

Tæknimenn frá RIMS og JMP Group mældu Oddverja upp, gerðu þrívíddarteikningar og sigldu á honum út til að sjá virkni vélar og allra tækja. Mynd/Aðsend
Tæknimenn frá RIMS og JMP Group mældu Oddverja upp, gerðu þrívíddarteikningar og sigldu á honum út til að sjá virkni vélar og allra tækja. Mynd/Aðsend

„Tímalínan sem við erum með núna er þannig að við getum farið í breytingarnar á næsta ári,“ segir Kolbeinn. Nú sé verið að horfa til þess að fara í breytingar á tveimur bátum. „Annar þeirra verður hundrað prósent rafvæddur. Þar erum við með fyrirtæki sem heitir Hanwha Aerospace sem hannar batterí. Annað fyrirtæki er yusinHR sem er í breytingum á bátum og í að smíða báta frá grunni. Síðan erum við líka að skoða hybrid lausn þar sem við erum með tvinnlausn. Þar erum við með fyrirtæki sem heitir JMP Group,“ segir Kolbeinn.

Fjórða fyrirtækið í Suður-Kóreu er síðan skipasmíðastöð sem heitir Daehae Ship Engineering. „Hún á að sjá um hönnun á breytingum á báðum bátunum. Eitt er að hanna búnaðinn og að hann virki og annað er að koma honum fyrir í skrokknum á þessum bátum,“ segir Kolbeinn.

Boltinn í Suður-Kóreu

Stofnunin sem fyrr er nefnd RIMS verður með alla tæknilega yfirumsjón og samþættingu. „Fulltrúar frá þeim og skipasmíðastöðinni fóru um borð í þessa báta á Siglufirði, mældu þá hátt og lágt og gerðu þrívíddarteikningar af þeim. Við sigldum út og þau sáu vélina í aksjón og náðu í öll þau gögn sem þau þurfa,“ segir Kolbeinn. Á næstu mánuðum verði þessi gögn færð inn í þrívíddarlíkan af bátnum. „Þannig að þegar þau koma til landsins og með búnað og teikningar þá sé þetta allt klárt. Þá sé hægt að taka báta inn í smiðju og byrja.“

Sem fyrr segir er Kolbeinn nú enn vissari en þegar farið var af stað með verkefnið að það muni ganga upp. „Það á vissulega eftir að hnýta einhverja lausa enda og það er í mörg horn að líta. Takturinn í vinnunni er núna dálítið kominn yfir til Kóreubúanna. Miðað við þeirra áætlanir og hugmyndir um hvert við getum farið með þetta verkefni þá er ég viss um að þetta verði að veruleika,“ segir hann.

Vilja vera í heimabyggð

Hér heima hefur Grænafl einnig samstarfsaðila.

„Við nálguðumst þetta strax þannig að það þýddi ekkert að horfa á að breyta bara einum báti, við þurftum að horfa á allar hliðar málsins. Og þar með talið eru náttúrlega hleðslustöðvar. Okkar helsti samstarfsaðili er HS orka. Þau eru með okkur, sérstaklega í þeim hluta sem kemur að hleðslustöðvum og við erum á fullu í því. Og við höfum líka aðgang að þeirra sérfræðingum þegar kemur að rafmagnsmálum,“ segir Kolbeinn og nefnir einnig starfsamning við verkfræðistofuna Eflu um þjónustu ef með þurfi.

Aðstaðan í Slippnum á Akureyri  skoðuð. Með hybrid lausnum segir  Kolbeinn að færi gefist á að skala  verkefnið upp í stærri báta.  Mynd/Aðsend
Aðstaðan í Slippnum á Akureyri skoðuð. Með hybrid lausnum segir Kolbeinn að færi gefist á að skala verkefnið upp í stærri báta. Mynd/Aðsend

Kolbeinn segir að nú standi yfir viðræður um hvaða smiðja verði með í verkefninu. „Kóreumennirnir skoðuðu þann möguleika, og það er alltaf opið að fara hreinlega með bátana út til Kóreu og breyta þar en við viljum endilega gera þetta í heimabyggð og höfum verið í viðræðum við Slippinn á Akureyri en það á eftir að ganga frá því.“

Háleit markmið Kóreumanna

Kóreumennirnir voru að sögn Kolbeins ánægðir með það sem þeir upplifðu hér í nýafstaðinni Íslandsheimsókn sinni.

„Við höfum alltaf verið mjög metnaðarfullir hér og handviss um að þetta muni breiðast út í fjölmarga báta hér heima og algerlega sannfærðir um að hafnir hringinn í kringum landið munu vera með okkur í því að setja upp hleðslustöðvar. En Kóreubúarnir eru með miklu háleitari markmið og verkefnið verður flutt héðan út til Kóreu inn í bátaflotann þar. Og þeir eru jafnvel þegar byrjaðir að huga að því að þaðan fari það víðar um Suðaustur-Asíu,“ segir framkvæmdastjóri Grænafls.