Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar eru byrjaðir að vinna að endurskoðun aflareglu í loðnu, en stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu á næsta ári.
„Þetta er bara regluleg endurskoðun. Það er miðað við það hjá ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðinu, að það sé endurskoðað á um það bil fimm ára fresti,“ segir Birkir Bárðarson fiskifræðingur um endurskoðun aflareglu í loðnu, en vinna er hafin að henni og stefnt að því að ljúka henni á næsta ári.
„Við förum þá yfir alla helstu þætti ráðgjafarinnar, rýnum í það hvort þetta sé ekki örugglega í lagi og hvað megi þá betur fara. Það þarf að vera tryggt að þetta verði samþykkt sem vísindaleg nálgun og hægt sé að sýna að sjálfbær nýting verði á bak við.“
Aflareglu loðnu var síðast breytt árið 2015. Síðan þá hefur verið krafa um að 150 þúsund tonn verði eftir í hrygningarstofni, en það var töluverð breyting frá gömlu aflareglunni þar sem miðað var við 400 þúsund tonn.
Samstarfsverkefni
Nú styttist óðum í næsta loðnuleiðangur, haustleiðangurinn svonefnda sem jafnan er farinn í septembermánuði. Bæði hafrannsóknaskipin, Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson, halda af stað 6. september og svipast um eftir loðnu í um það bil tvær og hálfa viku.
„Bjarni Sæmundsson verður á okkar vegum, hann verður í 17 daga og svo leigjum við Árna Friðriksson til Grænlendinga í þetta verkefni, hann verður í 19 daga,“ segir Birkir, sem stýrt hefur loðnumælingum stofnunarinnar undanfarin ár.
„Þessi haustleiðangur hefur síðustu ár verið samstarfsverkefni Grænlendinga og Íslendinga. Við höfum verið með okkar skip, ýmist annað eða bæði, en Grænlendingar hafa verið með leiguskip. Síðast var það Eros sem er norskt uppsjávarskip. En nú ætla þeir að leigja Árna í verkefnið.“
Ís og veður ráða
Siglt verður um stórt svæði fyrir norðan land og yfir landgrunninu við Austur-Grænland, allt vestur að bænum Tasiilaq, sem áður hét Angmagssalik, og vel norður fyrir Jan Mayen, líklega allt að Shannon-eyju sem er rétt við Grænland.
„Ef aðstæður leyfa, bæði ís og veður, má reikna með að við förum alveg norður að 75. gráðu,“ segir Birkir. „En það getur brugðið til beggja vona hvað við komumst yfir. September er samt sá mánuður sem útbreiðsla á ís er minnst á þessu svæði, og það er að miklu leyti ástæðan fyrir tímasetningunni.“
Vonast er til þess að leiðangurinn staðfesti tiltölulega góða stöðu loðnustofnsins, eftir nokkur mögur ár.
„Þessir leiðangrar gera tvennt, því við náum bæði að mæla ungloðnuna sem er ókynþroska loðna og kemur þá inn í veiðina á vertíðinni 2023, og svo fullorðnu loðnuna sem verður uppistaðan í komandi vertíð. Það var í þessum leiðangri í fyrra sem við mældum vel af ungloðnu.“
Niðurstaðan í fyrra varð sú að bráðabirgðaráðgjöf var gefin út fyrir vertíðina 2022 upp á 400.000 tonn, sem er töluvert stökk frá 127.300 tonna ráðgjöf á síðustu vertíð.