Veiðigjaldið hjá Ramma hf. í Fjallabyggð hefði farið úr 56 milljónum króna árið 2010 í 772 milljónir miðað við forsendur frumvarps ríkisstjórnarinnar um veiðigjald. Þetta kom fram í máli Ólafs Marteinssonar, framkvæmdastjóra Ramma, á fjölmennum fundi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í vikunni.
„Ríkið tekur allt og meira til. Fyrirtækið á fyrir vöxtum og veiðiskattinum en getur ekki staðið að fullu við afborganir,“ sagði Ólafur.
Í máli Gests Geirssonar, framkvæmdastjóra landvinnslu Samherja kom fram að veiðileyfagjald á Samherja hefði numið 2,6 milljörðum króna árið 2010 ef núverandi frumvarp hefði þá gilt sem lög.
Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar og fundarstjóri á fundinum dró niðurstöður fundarins saman í lokin og sagði: „Fólk í héraði hefur gríðarlegar áhyggjur. Óvissan er algjör, mál eru ekki hugsuð til enda, ljósir punktar vart finnanlegir og algjör skortur á samráði. Löggjöfin er vond fyrir Eyjafjörð.“
Á heimasíðu Ramma má finna samantekt stjórnar Útvegsmannafélags Norðurlands á því sem fram fór á fundinum. www.rammi.is