Forsvarsmenn stóru útgerðar- og vinnslufyrirtækjanna í Grindavík binda vonir við að unnt verði að hefja starfsemi að einhverju leyti í fiskvinnslum fyrirtækjanna í þessari viku. Þeir segja mikið í húfi. Um þetta leyti ætti að standa sem hæst framleiðsla á saltfiski fyrir markaði í Suður-Evrópu en neysla á þessari afurð er hvað mest í kringum páskahátíðina.
Saltfiskmarkaðir í hættu
„Það eru svo mörg fyrirtæki með mikið undir í Grindavík og þetta er meira og stærra högg en menn áttu von á. Við vorum byrjaðir vinnslu í helmingnum af húsinu og vorum farnir að búa okkur undir að byrja í hinum helmingnum. Kvótinn fer ekkert og hann er bundinn við skipin en það er vinnslan sem er undir. Það dugar ekki að hætta henni og selja fiskinn frá sér. Það þarf að skaffa viðskiptavinunum þær vörur sem við höfum byggt upp,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.
Hann vildi ekki úttala sig um það hvort menn væru að horfa á endalok fiskvinnslu á staðnum til skemmri eða lengri tíma. Nokkuð ljóst sé þó að það verði enginn eftir í bænum, hvorki barnafjölskyldur né barnlausar fjölskyldur.
„Fyrsta spurningin er hvernig hafnarsvæðið lítur út. Verður hægt að koma þangað að morgni og fara að kvöldi? Ef ætlunin er að gera eitthvað í sambandi við saltfiskmarkaði þá þarf að gera það núna. Þeir eru snemma á árinu páskarnir núna og hver dagur og hver vika getur verið dýr. En það ríkir talsverð óvissa.“
Pétur Hafsteinn segir að í fyrri björguninni hafi megnið af birgðunum verið fjarlægðar úr húsunum og síðan hafi safnast töluvert upp aftur og því mikið undir.
Eins og komið hefur fram er komið á heitt vatn og rafmagn í stærsta hluta bæjarins en fjölmargar sprungur hafa myndast innanbæjar sem geta verið varhugaverðar.
Skýrist vonandi í vikunni
Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar, segir aðstæður á hafnarsvæðinu í Grindavík ágætar að því undanskildu að svæðið hefur aðeins sigið. Annað sem hafi gerst í síðasta atburði er að höfnin hefur dýpkað sem er til hagsbóta fyrir stærri skipin að athafna sig. Það geti þó komið að sök á stórstraumsflóði og áhlaðanda. Innsiglingin hefur verið könnuð og engar breytingar hafa orðið á henni.
Heitu vatni hefur verið komið á í hluta bæjarins sem og rafmagni en hvað innviðina varðar telur Gunnar ljóst að einhverjar skemmdir hafi orðið í eystri hluta bæjarins.
„Við erum á þeirri skoðun að við eigum að geta haldið áfram vinnslu þegar þessi atburður er yfirstaðinn. Það þarf að koma hita og rafmagni á allan bæinn. Við höfum ekkert planað ennþá hvernig starfsmenn kæmu til vinnu en eins og þetta var gert þá komu starfsmenn á sínum eigin bílum að morgni og fóru að kvöldi. Þannig er auðveldast að yfirgefa staðinn í snatri. Það er mikið undir að geta haldið áfram að framleiða vöruna og þjóna okkar viðskiptavinum. Ég á von á því að það skýrist í vikunni hvort við getum haldið vinnslunni áfram,“ segir Gunnar.