„Það voru fínustu lóðningar að sjá á miðunum í gær. Við fylltum skipið í fimm köstum með nótinni. Menn voru jafnvel í vandræðum með að fá ekki of stór köst svo þeir rifu næturnar. Það er mikill hraði á þessari loðnugöngu enda sterkur sjávarstraumur í vesturátt sem hjálpar henni vestur með suðurströndinni," segir Guðlaugur Jónsson skipstjóri á Ingunni AK 250 í samtali á vef Skessuhorns. Hann og áhöfn hans komu með fullfermi, tvö þúsund tonn, að landi á Akranesi í nótt.

Menn gera sér nú vonir um að loðnuganga skili sér líka norðan að, suður með Vestfjörðum og inn á grunnslóðina við Snæfellsnes og í Faxaflóa. "Það var það mikið af loðnu fyrir Norðurlandi nú eftir áramótin og ljóst að hún hefur ekki skilað sér öll upp við Suðurlandið. En við þurfum nokkra daga með þokkalegu veðri til að sjá þetta almennilega og átta okkur á þessu," segir Guðlaugur.  Samkvæmt veðurspám á að lægja í nótt. Upp úr hádegi á morgun byrjar síðan að hvessa að norðan og óvíst hve friðurinn fyrir vetrarstormunum varir lengi.

"Ég býst við góðri veiði áfram en annars þýðir ekkert annað en taka bara einn dag í einu í þessu. Það eru alltaf brælur og frátafir vegna þeirra. Tíðarfarið er búið að vera mjög erfitt," segir skipstjóri Ingunnar.

Nú er verið að landa úr Ingunni. Hoffell II sem HB Grandi tók á leigu hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði er svo væntanlegt til löndunar á Akranesi með um 800 tonn. Þann afla hafði skipið fengið við Vestmannaeyjar áður en það varð fyrir því óhappi að fá nótina í skrúfuna. Hoffellið er nú í Reykjavíkurhöfn til að fá bættan skaðann á nótinni og kemur svo upp á Akranes til löndunar.