Átta bátsströnd hér við land á þriggja ára tímabili, 2017 til og með 2019, má rekja til þess að stjórnandi báts hafði sofnað. Þar af voru fjögur strönd á árinu 2019, þrjú árið 2018 og eitt árið 2017. Í öllum tilvikum voru þetta bátar innan við 12 metrar á lengd. Allir skipverjar komust heilir á húfi úr þessum ströndum.
Í öllum slysunum að einu undanskildu var innbyggður aðvörunarbúnaður í siglingatækjum ekki notaður. Annað sem bátarnir áttu sammerkt var að enginn þeirra var með svokölluðum vökustaur eða brúarvakt, sem er reyndar ekki lögboðinn búnaður um borð í bátum hér við land.
Án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð mætti ætla að með vökustaur og réttri notkun eða með réttri notkun innbyggða aðvörunarkerfa í siglingatækjum hefði mátt forðast sum þessara stranda eða jafnvel öll. Ströndin eru öll rannsökuð og skráð af rannsóknanefnd samgönguslysa.
Skylda í Noregi
Í Noregi er skylda að vera með vökustaura í öllum fiskiskipum og -bátum. Einn af þeim sem fjárfestu í slíkum búnaði er Íslendingurinn Ólafur Einarsson sem gerir út Einar á Myre frá samnefndum stað í Norður-Noregi. Einar á Myre er stærsti tefjabátur sem Trefjar ehf. í Hafnarfirði hefur smíðað.
Ólafur var að eitthvað að bardúsa ofan í lest þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn. Hann fór fyrst á sjóinn í Noregi árið 2014 og eigin útgerð stofnaði hann ári síðar í bænum Myre í Norður-Noregi. Hann segir almennt vel staðið að öryggismálum í Noregi en þó er þar eitt og annað með öðrum hætti en hér á landi.
Ólafur lætur vel af sér í Noregi. Báturinn hafi reynst vel þrátt fyrir minniháttar bilanir eins og alltaf megi búast við. Báturinn er góður sjóbátur. Hann er gerður út á línu með beitingarvél. Krókarnir eru 25.000 talsins og tvær lagnir eru í hverjum róðri sem stendur í um einn og hálfan sólarhring.
Ekki dýr búnaður
Þegar rætt var við Ólaf voru menn að bera sig eftir ýsu. Það hafði verið kropp og menn að undibúa sig undir síðasta túrinn fyrir jól. Oft er sölutregða vikuna fyrir jól og verðfall á mörkuðum. Menn eru því ekkert að spenna sig upp í róðra.
„Það er skylda hér í Noregi að vera með vökustaura í öllum bátum. Hér kallast þessi búnaður „bruvagt“ og er tengdur hreyfiskynjara. Búnaðurinn gefur frá sér hljóðmerki verði hann þess áskynja að engin hreyfing er í brúnni í um fimm mínútur þegar báturinn er á 7 mílna siglingu eða meira. Búnaðurinn er óvirkur þegar línan er dregin á 1-2 mílna siglingarhraða,“ segir Ólafur.
Hann segir að auðvitað væri réttast að menn settu upp vökustaura í bátana ef tilfelli eru um það að skipstjórnendur sofni á vaktinni. Þetta sé ekki heldur það dýr búnaður að það ætti að standa í vegi fyrir því. Öll öryggistæki séu af hinu góðu.
Öryggiskröfur áþekkar
Alls eru fjórir í áhöfn Einars frá Myre og fimm á hávertíðinni. Ólafur segir að þrátt fyrir skyldunotkun á vökustaurum gerist það í Noregi eins og annars staðar að bátar strandi. Þó kannski síður vegna þess að þeir sofni við stjórn á bátum en kannski heldur vegna vélabilana og þess hvernig háttar til við strendur Noregis þar sem er urmull skerja sem þurfi að vara sig á. Norska strandgæslan er með stöðugt eftirlit með baujum og staurum á innsiglingarleiðum. Þrír bátar strandgæslunnar hafa einungis það verkefni að lagfæra baujur og staura við strendur landsins.
„Öryggiskröfur hér í Noregi og á Íslandi eru mjög áþekkar en þó er ekki skylda að nota vökustaura heima á Íslandi. Annað er á líka lund eins og Slysavarnaskóli sjómanna og endurmenntun sem allir þurfa að sækja hér eins og á Íslandi. Norðmenn eru þó heldur seinni til að taka upp Evrópureglugerðir þar sem Íslendingar eru yfirleitt fyrstir allra þjóða jafnvel þótt þeir séu oft ekki í stakk búnir til að taka á móti reglugerðafarganinu. AIS kerfið (sjálfvirka tilkynningaskyldukerfið) er til að mynda ekki skyldubúnaður nema á bátum sem eru yfir 15 metrar að lengd. Mér fannst það dálítið skrítið þegar ég kom hingað fyrst að það þurfti ekki að tilkynna sig út og inn í höfn þegar farið var í róður og að róðri loknum. Ég myndi því segja að það væri betur fylgst með manni á Íslandi en hérna úti í Noregi,“ segir Ólafur.
En lítum aftur til þeirra óhappa sem tiltekin voru hér í upphafi umfjöllunarinnar.
Látið reka
Seint í nóvember 2019 var Lágey ÞH við línuveiðar í Þistilifirði með fjögurra manna áhöfn. Eftir að hafa lagt línuna var látið reka í 3,5 til 4,5 klukkutíma þar til báturinn strandaði norður af Krossavík kl. 4:30 að nóttu. Við rannsókn bar skipstjóri því við að hann hefði farið að sofa upp úr miðnætti á eftir öðrum skipverjum eftir að hafa talið bátinn öruggan. Skipstjóri taldi að siglingatækin væru með aðvörunarbúnað en þau höfðu ekki verið notuð. Vinnuregla hjá útgerðinni var sú að maður væri alltaf á vakt í stýrihúsi og viðvörunarbúnaður siglingatækja notaður. Þeirri reglu hefði ekki verið fylgt eftir. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF EIR bjargaði áhöfninni.
Vansvefta
Í júlí sama ár strandaði Hafdís SU á landleið í sunnanverðum Súgandafirði. Við rannsókn kom fram að stjórnandi bátsins, sem var einn í honum, hafði sofnað eða liðið út af og vaknaði hann ekki fyrr en við strandið. Engar viðvaranir voru á siglingartækjum fyrir grynningum í bátnum.
Í maí sama ár lenti Sunnutindur SU, sem hafði verið á línuveiðum, á skeri við Grjóteyrarmöl við Djúpavog, þegar hann var á leið inn til löndunar. Þrír voru í áhöfn. Veiðiferðin hafði staðið yfir í 31 klukkustund. Við rannsókn kom fram að stjórnandi bátsins hafði sofnað. Hann hafði sofið u.þ.b. 3-5 klst um fjórum sinnum á tveimur sólarhringum. Í þessum túr hafði hann hvílst í um 5 klst. Siglingatölva og dýptarmælir voru í gangi en voru ekki með aðvörunarbúnað virkjaðan.
Allir sofandi í stýrishúsinu
Tíu dögum áður, 7. maí 2019, hafði Mars HU verið við grásleppuveiðar áður en hann strandaði í Hrútafirði. Báturinn losnaði af strandstað en mikill leki kom að honum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en björgunarsveitinni Húnum tókst að bjarga áhöfninni, þremur mönnum, skömmu áður en báturinn sökk. Rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa leiddi í ljós að skipstjórinn og aðrir í áhöfn hefðu verið í stýrishúsinu þegar báturinn strandaði. Skipstjórinn var á siglingarvakt en hinir sofandi. Fram kom að skipstjórinn sofnaði eða datt út við stjórn bátsins. Siglingatæki og GPS Plotter, voru í gangi. Bæði tækin höfðu innbyggðan aðvörunarbúnað um örygga siglingu sem ekki var notaður.
3. september 2018 strandaði handfærabáturinn Steinunn ÍS í Stigahlíðinni rétt við Bolungarvík. Hann sökk þegar hann var dreginn af strandstað en það náðist að hífa hann á land. Einn var í bátnum og hafði hann sofið í fjóra til fimm tíma fyrir veiðiferðina. Fram kom í rannsókn að miðstöð í bátnum var biluð og notaðist skipverjinn við helluborð með gashiturum til upphitunar í stýrishúsinu. Orsök strandsins var talin sú að skipverji hefði sofnað við stjórn bátsins, mögulega vegna súrefnisskorts.
Einn á sjó í 38 tíma
22. ágúst sama ár strandaði handfærabáturinn Óskar SK í Sandvík á Reykjaströnd í Skagafirði með einum manni um borð. Hann hafði sofnað við stjórn bátsins. Báturinn var dreginn á flot og til hafnar á Sauðárkróki. Fram kom að veiðiferðin hafði staðið yfir í 38 klukkustundir þegar báturinn strandaði og skipverjinn hafði sofið 5-6 klst á þessu tímabili. Dýptarmælir var ekki stilltur þannig að hann gæfi viðvörun á grynningum.
Eina atvikið á árinu 2017, sem rekja má til þess að skipverji sofnar við stjórn báts, er strand Mars HU á Miðfirði um 0,7 sjómílur fyrir norðan Hvammstanga í júlímánuði. Mars HU strandaði síðan aftur tæpum tveimur árum síðar af sömu orsökum, eins og greint er frá hér að ofan. Skipstjóri var einn um borð og dró björgunarbáturinn Húni hann af strandstað til hafnar á Hvammstanga. Við rannsókn kom fram að skipstjórinn sofnaði við stjórn bátsins 20-25 mínútum áður en hann strandaði. Hann hafði verið vakandi í a.m.k. 20 klst. frá því hann lagði úr höfn. Siglingatæki sem voru í gangi við strandið voru dýptarmælir og GPS Plotter. Bæði tækin höfðu innbyggðan aðvörunarbúnað um örugga siglingu en hann var ekki notaður þrátt fyrir þekkingu skipstjóra á notkun hans.
Brúarvakt getur bjargað mannslífum
Nú ber á því að eigendur minni báta láti setja upp búnaðinn Brúarvakt að eigin frumkvæði, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu Sónar í Hafnarfirði sem er eitt þeirra fyrirtækja sem sem flytur inn og selur vökustaura. Búnaðurinn er skylda í alla báta í Noregi og Sónar hefur selt talsverðan fjölda tækja í nýsmíðar á Íslandi fyrir Noregsmarkað.
Hjá þeim kallast tækið BNWAS sem er stytting á enska heitinu Bridge Navigational Watch Alarm System og kallast Brúarvakt á vegum Sónar. Kerfinu fylgir hreyfiskynjari í brú og hraðaskynjari sem tengist GPS-kerfi bátsins. Einnig er hægt að tengja sjálfstýringu bátsins við kerfið sem er þá virkt meðan sjálfstýringin er á.
BNWAS er vöktunarkerfi tengt hreyfiskynjara í brúnni og sjálfstýringu/NMEA hraðamerki. Hægt að láta kerfið fara sjálfkrafa í gang þegar bátur fer yfir ákveðinn hraða og/eða þegar sjálfstýring er á Auto. Ef enginn hreyfing er í brúnni og ekki kvittað reglulega þá fer aðvörun í gang. Ef reglulega er hreyfing í brúnni þarf ekki að kvitta fyrir og engin aðvörun mun heyrast.
Hægt er að tengja svokallaðn Alpha NMEA Activator við Alpha BNWAS en þá er að stilla að BNWAS kerfið fari í gang þegar hraði skipsins fer yfir 3 sjómílur eða 5 sjómílur, til dæmis eftir að línubátar hafa hætt að draga og eru komnir á siglingu. Við þær aðstæður, þegar veiðum er lokið og siglt er í landi, er einmitt mesta hættan á því að höfgi sígi á stjórnendur. Búnaður af þessu tagi, sem getur bjargað jafnt mannslífum og miklum verðmætum, kostar á bilinu 130-150 þúsund krónur.
Umfjöllunin birtist upphaflega í Öryggisblaði Fiskifrétta 21. janúar sl.