Tómas H. Heiðar, formaður samninganefndar Íslands í makrílviðræðunum, væntir þess að ESB og Noregur komi fram með raunhæfari tillgögur en áður um hlutdeild Íslands í veiðunum á fundi strandríkja í næstu viku. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Viðræðum um stjórn makrílveiða verður fram haldið í næstu viku í tengslum við ársfund NEAFC sem haldinn er í London og hefst 8. nóvember. Gert er ráð fyrir að sjálfar makrílviðræðurnar fari fram 10.-12. nóvember.

Íslendingar vilja fá um 16-17% hlutdeild í heildarveiðinni en hafa lýst sig reiðubúna til að sýna sveigjanleika gegn því að íslensk skip fái aðgang að lögsögu ESB og Noregs. Tómas sagði að lítið hefði borið í milli Íslands og ESB í tvíhliða viðræðum fyrir síðasta fund strandríkja en ESB hefði síðan snúist á sveif með Norðmönnum sem buðu Íslendingum aðeins 3,1% í heildarveiðinni. ,,Ég vænti þess að fulltrúar ESB sýni samningsvilja sinn í verki og tefli fram raunhæfari tölum um makrílveiðar Íslendinga á fundinum í næstu viku. Íslenska samninganefndin mun leggja sig fram við að finna sanngjarna lausn á þessu mikilvæga máli,“ sagði Tómas.