Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG) og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) hafa samþykkt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Tilkynnt var um niðurstöðu atkvæðagreiðslu í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag.

VM samþykkti samninginn með 67,6% atkvæða en 31,3% greiddu atkvæði gegn samningnum. Kosningaþátttaka var um 64%.

SVG samþykkti samninginn með 56,4% atkvæða en 38,3% voru á móti. Kosningaþátttaka var 43.6%.

Í þessum kjarasamningum er unnið að bættum kjörum og réttindum, auk hnitmiðaðra aðgerða til að auka traust við skipti á verðmætum úr sjó. Greiðslur í lífeyrissjóð og kauptrygging hækka í samræmi við samninga á almennum vinnumarkaði, auk þess sem áhersla er lögð á aukið gagnsæi og upplýsingagjöf vegna fiskverðsmála.

Felldu kjarasamning fyrir ári

Þessi félög höfðu áður fellt kjarasamning í febrúar í fyrra en nokkrar breytingar eru á þeim samningi og þeim sem samþykktur var í dag. Tímakaup hefur verið hækkað, verulega hefur verið aukið við svigrúm til uppsagnar samningsins, skerpt hefur verið á réttarstöðu í tengslum við slysa- og veikindarétt þeirra sem ráðnir eru með tímabundinni ráðningu og horfið hefur verið frá skipan gerðardóms við úrlausn mögulegra breytinga á skiptaprósentu ef ný tækni eða nýjar veiði- og verkunaraðferðir eru fyrirsjáanlegar.

Í samningi VM hefur jafnframt verið samið um desemberuppbót, sem ekki hefur tíðkast í hlutaskiptakerfi, frá og með desember 2024. Í samningi SVG er einnig samið um desemberuppbót, en hún verður fyrst greidd árið 2028. Sjómenn innan SVG fá að auki greidda eingreiðslu 1. apríl nk. að fjárhæð 400.000 kr., miðað við 160 lögskráningardaga á sl. ári.

„Við fögnum því að hafa nú gilda samninga við rúmlega 90% sjómanna á skipum fyrirtækja innan SFS. Það eykur fyrirsjáanleika sem tryggir hagsmuni okkar allra sem vinnum í þessari grein, ekki síst sjómannanna sjálfra,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Nýir kjarasamningar hafa ekki verið gerðir við Sjómannafélag Íslands. Engar viðræður hafa staðið yfir milli þess og SFS.