„Menn gleyma því alltaf að byggðakvótinn er ekki bara fyrir þá sem eru á sjó heldur líka fyrir fólkið sem er í landi,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Bæjarstjórnin þar lýsir vonbrigðum með að engum byggðakvóta sé ráðstafað til sveitarfélagsins.

„Það hefur alltaf verið þannig hjá okkur að við höfum farið eftir reglum ráðuneytisins að því leyti að á móti öllum byggðakvóta sem er landað hjá okkur þarf að landa tonni á móti tonni til vinnslunnar,“ segir Kristinn. Fiskveiðiárið 2013-2014 hafi byggðakvótinn í Snæfellsbæ numið 735 tonnum og því hafi komið 1.470 tonn til vinnslu vegna hans.

Betra væri að einblína á samfélög með sterkri útgerð og vinnslu

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ Mynd/Aðsend
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ Mynd/Aðsend

„Þannig eru reglur um byggðakvóta þó að menn hafi alltaf verið að semja einhverjar sérreglur þannig að í raun hefur ekki verið að koma til byggðarinnar í heild sinni eins og átti að gera,“ segir Kristinn. Í Snæfellsbæ hafi reglan verið sú að þeir sem fiski mest fái mest af byggðakvótanum.

„En það hefur gerst smám saman að þetta hefur alltaf verið að minnka og minnka. Við hefðum haldið að það væri miklu betra að einblína á Íslandi á samfélög þar sem er sterk útgerð og fiskvinnsla. Verum bara með sterka fiskvinnslu og útgerð á ákveðnum stöðum og ekki á öðrum. Það er okkar skoðun og svo mega menn hafa skoðanir á því,“ segir Kristinn.

Sérstök skilaboð

Skilaboðin frá stjórnvöldum segir Kristinn sérstök fyrir Snæfellsbæ sem sé eitt af fáum svæðum á landinu þar sem séu mjög margar útgerðir, um eitt hundrað talsins, með smærri og stærri báta.

„Við erum að verða með þeim síðustu sem eru með vertíðarbáta af öllum stærðum og í eigu margra aðila. Okkur finnst að það sé alltaf verið að senda þau skilaboð að það eigi ekki að styrkja þau sveitarfélög sem eru öflug í sjávarútvegi á Íslandi heldur eigi bara að styrkja þá sem eru frekar aumir í sjávarútvegi og eru ekkert að vinna byggðakvótann á viðkomandi stöðum þannig að hann komi öllu samfélaginu til góða en ekki bara hluta af samfélaginu.“

Línuívilnunin aðeins brot af fyrra magni

Mjög slæmt segir Kristinn einnig hversu mikið potturinn í línuívilnun hafi dregist saman, úr um fjögur þúsund tonnum í þorski fyrir nokkrum árum í um 800 tonn.

„Það birtast reglulega fréttir um að nú sé línuívilnunarpotturinn búinn, hann dugar ekki orðið nema hluta af árinu fyrir þessar útgerðir. Það er alltaf verið að skerða þessar heimildir til aðila sem eru að gera út á ársgrundvelli. Og það er alltaf verið að færa frá okkur þessum sjávarútvegsbyggðum í eitthvað annað. Við vitum alveg hvert potturinn er að fara en ég ætla ekki að nefna það,“ segir bæjarstjórinn í Snæfellsbæ.