Norska hafrannsóknaskipið Kronprins Haakon hefur undanfarið verið á suðrænum slóðum, þar sem vísindamenn um borð hafa safnað vatnssýnum til umhverfiserfðarannsókna.
„Allar lífverur skilja eftir sig erfðaefni í umhverfinu,“ segir á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet. Með því að greina erfðaefnið sem finnst í vatnssýni má sjá hvaða lífverður hafa verið þar á sveimi.
„Við ætlum að reyna að lýsa vistkerfinu út frá aðeins einu vatnssýni,“ er þar haft eftir Rasmus Skjern-Mauritsen, sem er bæði vistfræðingur og sameindalíffræðingur.
„Með því að sameina þessar tvær fræðigreinar getum við mótað nýjar aðferðir við að fylgjast með vistkerfinu,“ segir hann, en hann er um borð í skipinu ásamt fleiri vísindamönnum.
Kronprins Haakon var nýverið á siglingu til Suður-Georgíu, eyjar skammt norður frá Suðurskautslandinu þar sem norskir hvalveiðimenn höfðu lengi vel bækistöð.
Þessi tegund hafrannsókna er ný af nálinni, en starfsmenn Hafrannsóknastofnunar Íslands eru þegar byrjaðir að stunda slíkar rannsóknir hér við land. Meðal annars er vonast til þess að þær geti hjálpað til við að finna loðnuna.
Christophe Pampoullie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun, sagði í viðtali við Fiskifréttir seint á síðasta ári stefnt að því að taka sjósýni og greina þau strax um borð í skipunum. Þá gætu menn séð „hvort erfðaefni úr loðnu sé að finna þarna í hafinu. Ef sú yrði raunin þá getum við fylgt hafstraumunum og leitað uppi loðnuna.“