Góður gangur hefur verið í veiðunum hjá Sigurbjörgu ÁR sem ber reyndar ekki lengur stafina ÁR eins og Óskar P. Friðriksson ljósmyndari í Vestmannaeyjum komst að snemma í morgun. Þá var málað yfir ÁR og er nú bara breitt bil á milli nafns togarans og skráningarnúmersins 67. Þess er nú beðið með talsverðri eftirvæntingu að fagmenn á sviði málunar bæti VE inn í bilið.

Sigurbjörg í morgunsárið í Eyjum. FF MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON
Sigurbjörg í morgunsárið í Eyjum. FF MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Smíði skipsins fór af stað á árinu 2022 samkvæmt samningi milli Ramma hf. og Celiktrans skipasmíðastöðvarinnar í Tyrklandi. Skipið var svo sjósett í Tyrklandi í ágúst 2023. Ári síðar fór það í sin fyrsta róður á Íslandsmiðum. Um mitt sumar 2023 sameinuðust Rammi og Ísfélagið í Ísfélagið hf. og tekin var í framhaldinu ákvörðun um að hætta útgerð og vinnslu í Þorlákshöfn. En þá var fyrir allöngu síðan búið að merkja skipið ÁR 67.

Sigurbjörg VE er 48 metra langur ísfisktogari, 14 metra breiður og skrúfan er 4,2 metrar í þvermál. Skipið er með fjórum togvindum sem gerir því mögulegt að draga þrjú troll. Kaupverð skipsins var um 3,1 milljarður króna. Það er hannað af skipahönnunarfyrirtækinu Nautic.