Stofnvísitala þorsks hefur hækkað fjórða árið í röð og er nú svipuð og árin 1998 og 2004. Fyrsta mat á 2010 árgangi þorsks bendir til að hann sé slakur. Þetta kemur fram í frétt frá Hafrannsóknastofnun þar sem greint er frá niðurstöðum úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum í mars síðastliðnum, eða vorrallinu svonefnda.

Útbreiðsla þorsks var nokkuð jöfn og helstu breytingar á útbreiðslu frá fyrra ári voru þær að meira fékkst fyrir suðaustan og norðvestan land en minna í kantinum úti fyrir Norðausturlandi.

Í frétt Hafrannsóknastofnunar segir að hækkun vísitölunnar undanfarin ár megi einkum rekja til þess að æ meira hefur fengist af stórum þorski (stærri en 70 cm). Þetta kemur vel fram í lengdardreifingu þorsksins sem sýnir jafnframt að minna er nú af millifiski á bilinu 35-60 cm en að meðaltali á tímabilinu 1985-2010. Fyrsta mat á 2010 árgangi þorsks bendir til að hann sé slakur. Árgangarnir frá 2008 og 2009 mældust hins vegar meðalstórir ef miðað er við mælingar í vorralli frá 1985.

Yngstu aldurshópar þorsks (1-3 ára) mældust undir meðalþyngd eins og undanfarin 6-7 ár. Meðalþyngd eftir aldri hefur hins vegar farið hækkandi hjá 4-9 ára þorski undanfarin tvö ár og er nú um og yfir meðaltali áranna 1985-2010. Við sunnanvert landið var holdafar þessara aldurshópa (slægð þyngd miðað við lengd) og lifrarstuðull með því hæsta sem verið hefur frá 1993, þegar vigtanir hófust. Fyrir norðan var þorskur í betri holdum og lifrarmeiri en verið hefur frá 1996.

Gott ástand þorsksins er í samræmi við það að meira var af loðnu í þorskmögum en undanfarin ár og var loðna langmikilvægasta bráð þorsksins eins og títt er á þessum árstíma. Loðna fannst í þorski allt í kringum landið en mest var í þorskmögum í Breiðafirði, á Vestfjarðamiðum og grunnt út af Norðurlandi, segir ennfremur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.