Vísisskipin hafa landað hvert á fætur öðru í Grindavík að undanförnu. Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á togaranum Jóhönnu Gísladóttur GK lét nokkuð vel af sér.
„Við lönduðum fullfermi á sunnudaginn. Mest af aflanum var ufsi en síðan var þetta þorskur og karfi. Við vorum á Eldeyjarbankanum í algjöru blíðuveðri. Það var nudd í ufsanum en það þurfti ekki mikið að hafa fyrir því að ná í þorskinn. Við fórum út strax að löndun lokinni og erum að koma aftur til löndunar í dag,” sagði Einar Ólafur í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Línuskipið Páll Jónsson GK kom til Grindavíkur á sunnudag og landaði á mánudag. Það var um hörkutúr að ræða hjá Páli. Jónas Ingi Sigurðsson skipstjóri var sæll með túrinn.
„Við vorum með 137 tonn eftir fimm lagnir. Við vorum í Háfadýpinu og veiðin var afskaplega fín. Í aflanum er 40% þorskur og 40% langa. Það var líka gott veður allan tímann þannig að menn eru afar kátir hér um borð,” sagði Jónas Ingi.
Línuskipið Sighvatur GK kom til löndunar í morgun og er aflinn 120 tonn. Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson skipstjóri var ánægður með samsetningu aflans.
„Aflinn er mjög blandaður. Við erum með 40 tonn af löngu, 30 tonn af þorski og 25 tonn af ýsu. Þar fyrir utan var alls konar mix, meðal annars þrjú tonn af skötu en það er dálítið sérstakt að hún virðist vera dreifð um allan sjó. Hún er líklega í ætisleit. Við hófum veiðar í Skatftárdýpi og fórum síðan á Síðugrunn. Þá var lagt á milli strengja suður af Eyjum og síðan klárað norður af Surtsey. Þetta voru fimm og hálf lögn. Við lögðum aldrei fulla lögn því reynt var að blanda aflann. Veður var frábært allan tímann og menn sallaánægðir. Það verður síðan haldið til veiða á ný að löndun lokinni í kvöld,” sagði Aðalsteinn Rúnar.