Vísir í Grindavík leggur áherslu á saltfiskframleiðslu ásamt því að frysta fisk. Stefnt hefur verið að því að taka árlega 10.000 tonn í saltfiskframleiðsluna hjá fyrirtækinu á meðan önnur 10.000 tonn færu til vinnslu í frystihúsi fyrirtækisins. Á þessu ári hefur verið tekið á móti 2.500 tonnum í salthúsi Vísis.
Rætt er við Sigurð Jónsson rekstrarstjóra saltfiskframleiðslu Vísis á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Sigurður fluttist til Grindavíkur árið 1989 en býr nú í Kópavogi. Hann hóf störf hjá Vísi árið 2006 og gegndi fyrst starfi verkstjóra við saltfiskframleiðsluna en tók við starfi rekstrarstjóra árið 2020. Sigurður hefur víðtæka reynslu og var um tíma á sjó auk þess að starfa við eftirlit hjá Sambandi íslenskra fiskframleiðenda. Sigurður segir að hann sé mjög ánægður í sínu starfi enda starfið fjölbreytt og sífellt verið að fást við ögrandi verkefni.
Byggir á traustum mörkuðum
„Við hjá Vísi erum að vinna úr um 80 tonnum á dag að meðaltali og einstaka daga er framleitt úr yfir 100 tonnum í salthúsinu og frystihúsinu. Í salthúsinu sjálfu starfa 48 manns og síðan starfa átta í svonefndu Gjögurhúsi og þrír við frystingu á léttsöltuðum fiski. Þannig að við saltfiskverkunina starfa um 60 manns. Starfsfólkið kemur frá sjö löndum að Íslandi meðtöldu. Hér starfa 23 Pólverjar, 17 Taílendingar, átta Serbar, átta Íslendingar og síðan tveir frá Nígeríu, Tékklandi og Spáni. Uppistaða starfsfólksins hefur unnið hér í mörg ár og hér er um að ræða frábært starfsfólk. Þegar ég hóf störf hjá Vísi voru 60% starfsmannanna Íslendingar en það hefur svo sannarlega breyst.

Hráefnið í saltfiskvinnsluna er mest þorskur, en síðan er framleitt úr keilu, ufsa og löngu. Starfsemin byggir á traustum mörkuðum sem auðvitað þarf að sinna vel. Stóri línufiskurinn fer mest á Ítalíu og Spán en smærri línufiskur fer á Grikkland. Síðan framleiðum við svonefndan portfisk í Gjögurhúsinu sem fer á Portúgal en það er trollfiskurinn sem nýttur er í þá framleiðslu. Áður fór netafiskur í portfiskframleiðsluna en nú heyra netaveiðar nánast sögunni til. Það hefur talsvert breyst hjá okkur eftir að Síldarvinnslan festi kaup á Vísi. Kvótinn jókst og það er jafnara flæði á fiski inn í vinnslurnar. Hráefnisöflunin varð öll öruggari en áður og það er mjög jákvætt fyrir starfsemina.
Öll vinnslan á ný í Grindavík
Lífið hjá okkur í Grindavík tók stökkbreytingu þegar náttúruhamfarirnar hófust 10. nóvember 2023. Síðan hefur fólkið þurft að búa annars staðar og kemur keyrandi til vinnu á degi hverjum. Um áramótin 2023-2024 var komið upp aðstöðu til saltfiskverkunar í Helguvík ásamt því að hluti af fiskinum var fullunninn í Cuxhaven í Þýskalandi. Þetta stóð hins vegar ekki lengi og í júnímánuði 2024 var öll vinnsla komin á ný til Grindavíkur. Það gekk ótrúlega vel að færa vinnsluna til Helguvíkur en það byggði auðvitað fyrst og fremst á jákvæðni og dugnaði okkar frábæra starfsfólks. Nú bíðum við eftir gosi en allir eru rólegir og yfirvegaðir. Við höfum æft rýmingar reglulega og það tekur enga stund að rýma vinnustaðinn. Þar að auki hafa menn litla trú á því að til rýmingar þurfi að koma. Það sem hefur truflað okkar starfsemi mest í undanförnum gosum er lokun Grindavíkurvegar en menn hafa verið snöggir að opna hann aftur. Hvað sjálfan mig varðar þá líður mér hvergi betur en í Grindavík og bíð þess rólegur að látunum sem verið hafa í náttúrunni hér í grenndinni linni,” sagði Sigurður Jónsson.
