Stjórnendur Vísis skoða nú þann möguleika að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins í áföngum til Grindavíkur en vinna um leið að uppbyggingu nýrra starfa í hinum bæjarfélögunum þremur, þar sem fyrirtækið er með umsvif, þ.e. á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi. Línuveiðibátum fyrirtækisins verður fækkað úr fimm í fjóra. Sjómönnum útgerðarinnar mun fækka lítillega þar sem áhafnir verða sameinaðar.
Í frétt frá Vísi segir að miklar breytingar hafi orðið á mörkuðum erlendis fyrir íslenskan fisk. Afurðaverð hafi lækkað um 20% og síauknar kröfur séu gerðar um ferskan fisk, sveigjaleika í framleiðslunni og skjóta afgreiðslu pantana. Til að mæta þessum breytingum vinni Vísir hf. nú að nýju skipulagi sem miði að því að viðhalda óbreyttum fjölda starfsmanna en bæta framlegð fyrirtækisins sem lækkaði um 50% milli áranna 2012 og 2013. Hjá Vísi starfa um 200 manns við fiskvinnslu og 100 á skipum fyrirtækisins.
Áform stjórnenda Vísis eru að færa allan tækjabúnað fyrirtækisins á einn stað. Þannig verður sveigjanleiki í starfseminni meiri og framleiðni eykst því auðveldra verður að stýra framleiðslunni í verðmætustu afurðaflokka hverju sinni og bregðast við kröfum erlendra fiskkaupenda. Fyrirtækið telur Grindavík kjörin stað fyrir fiskvinnsluna meðal annars vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og útflutningshöfn.
Á liðnum árum hefur Vísir hf. byggt upp starfsemi á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík til viðbótar starfsemi fyrirtækisins í Grindavík. Á hverjum þessara staða starfa um 50 manns, bæði fólk með fasta búsetu á svæðunum og verkafólk sem auðveldara á með að færa sig um set.
Stjórnendur Vísis vonast til að sem flestir haldi vinnu sinni, annað hvort í breyttri mynd á sama stað eða í sömu vinnu á nýjum stað. Til að svo megi verða muni þeir leggja sig alla fram af heilindum og fullu afli.
Sjá yfirlýsingar Vísis hf. vegna málsins í heild HÉR