Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vísir hf., sem er með höfuðstöðvar í Grindavík, hefur undirritað samning um kaup á vinnslubúnaði frá Marel í allar fjórar landvinnslueiningar sínar. Um er að ræða vinnslulínu, skurðarvélar, samvalsflokkara, hráefnisflokkara og vogir, ásamt Innova hugbúnaði.
Í fréttatilkynningu frá Marel kemur fram að hér sé um að ræða stærstu einstöku sölu á búnaði til íslensks sjávarútvegsfyrirtækis.
Stærstur hluti vinnslubúnaðarins verður settur upp í starfsstöð Vísis á Húsavík til endurnýjunar á eldri búnaði en einnig verður settur upp búnaður á Djúpavogi og Þingeyri. Nýi búnaðurinn mun bæta mjög alla aðstöðu starfsfólks ásamt því að auka framleiðslugetu og nýtingu í framleiðslu á ferskum fiski til útflutnings.