Vísindamenn við hafrannsóknastofnunina í Bergen hafa þróað kynlausan lax með erfðabreytingum. Þeir staðhæfa að kynlausi laxinn leysi flest vandamál sem laxeldið glími við í dag. Þetta kemur fram á norska vísindavefnum forskning.no.

Að sögn vísindamannanna bragðast kynlausi laxinn jafnvel og annar eldislax og hann hefur þann kost, eðli málsins samkvæmt, að hann tímgast ekki með villtum laxi sleppi hann úr sjókvíum. Á síðasta ári sluppu 185 þúsund eldislaxar og regnbogasilungar úr sjókvíum við Noreg. Þá er því haldið fram að kynlausi laxinn hafi meiri mótstöðu gegn sjúkdómum, jafnvel gegn laxalús, og að hann innihaldi meira af omega-3 fitusýrum.

Hér er um viðkvæmt mál að ræða því erfðabreytt framleiðsla heyrir undir sérstök lög í Noregi og ekki eru allir á eitt sáttir um að erfðabreytt matvæli eigi yfirhöfuð rétt á sér.