Ný aðferð við aldursákvörðun grálúðu sýnir að þessi fisktegund verður eldri en áður var talið. Þetta kom fram í rannsókn vinnuhóps á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem norski vísindamaðurinn Ole Thomas Albert stýrir.
Hin hefðbundna aðferð við að aldursgreina grálúðu og aðrar fisktegundir er að telja ,,árhringi” í kvörnum fiskanna. Grálúðan er í hópi þeirra fisktegunda sem hvað erfiðast er að nota þessa aðferð á.
Á síðustu tíu árum hefur nýrri aðferð verið beitt í þessu skyni en hún er í því fólgin að sprauta í fiskinn sérstöku efni sem verður sýnilegt yst á kvörninni. Síðan er sett merki í bakugga fisksins og honum sleppt. Eftir að fiskurinn endurheimtist er hægt að sjá hve margir árhringir hafa myndast eftir að merkingin átti sér stað. Með þessu móti verður aldurákvörðunin nákvæmari en ella.
Hingað til hefur verið talið að 70 sentimetra löng grálúða væri 10-12 ára gömul. Nýja aðferðin sýnir að grálúða af þessari lengd er 20 ára eða eldri, jafnvel allt að 30 ára gömul.
Vísindamennirnir í vinnuhópnum sem stóð að þessum rannsóknum eru frá Noregi, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Grænlandi, Póllandi, Spáni og Portúgal.
Þetta kemur fram á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.