Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur óskað eftir styrk frá sveitarfélaginu Hornafirði upp í fjármögnun á nýja björgunarskipinu Ingibjörgu sem kom til Hornafjarðar í síðustu viku.
Fram kemur í fundargerð bæjarráðs, líkt og í Fiskifréttum í síðustu viku, að Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi flýtt endurnýjun á björgunarskipinu Ingibjörgu þar sem talið sé að Hornafjörður sé ein af lykilstaðsetningum fyrir björgunarskip.
Bæjarráð vísaði beiðninni til umfjöllunar í hafnarstjórn Hornafjarðar.
Vonast eftir undirtektum nú þegar báturinn er kominn heim
Fram kom í samtali Fiskifrétta við Friðrik Jónas Friðriksson, formann Björgunarfélags Hornarfjarðar, í síðustu viku að Björgunarsjóður Hornafjarðar væri kominn áleiðis með að fjármagna kaupin en Slysavarnafélagið Landsbjörg og heimamenn bera helming kostnaðarins á móti ríkinu. Kaupverð Ingibjargar er hátt í 400 milljónir króna.
„Við erum búnir að vera að banka upp á hjá smábátaeigendum, líknarfélögum og fleirum og það er að skila sér hægt og bítandi. Við fáum þrjú til fjögur ár til þess að ná inn þessu fjármagni. Við erum á því að þegar skipið er komið heim og orðið áþreifanlegt og fólk áttar sig á þýðingu þess fyrir samfélagið munum við fá innspýtingu,“ sagði Friðrik Jónas Friðriksson.