Hinum árlegu strandríkjaviðræðum um veiðar úr uppsjávarstofnum í Norðaustur-Atlantshafi lauk þetta árið, rétt eins og undanfarin ár, með því að ríkin komu sér saman um að veiða ekki meira en sem nemur ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES.
Hins vegar virðist vera meiri vilji til þess núna en áður að ná samkomulagi um skiptingu veiðanna. Til þessa hafa ríkin hvert í sínu lagi tekið ákvarðanir um sinn hlut úr stofnunum, en samtals hefur aflinn þá farið verulega fram úr ráðgjöf ICES.
„Það sem er öðru vísi núna heldur en fyrir ári síðan er að þá samþykktu menn heildaraflamagn og svo var ekki áformað að hittast fyrr en að ári liðnu, en núna er heildaraflamarkið samþykkt með þeim heitstrengingum að hittast sem allra fyrst á komandi ári,“ segir Kristján Freyr Helgason, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, en hann var aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum.
Ekki í boði lengur
„Það er ekki í boði að segja: Við skulum bara tala saman eftir ár," segir Kristján.
Veiðiráðgjöfin hljóðar upp á 794.920 tonn af makríl, 752.736 tonn af kolmunna og 598.588 tonn af síld. Heildaraflamarkið verður sem þessu nemur, en ákvarðanir um skiptingu aflans milli strandríkjanna bíða sem sagt næsta árs.
„Menn töluðu á þeim nótum fyrir alla þrjá stofnana, að nú verði að láta á það reyna hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi. En fyrir ári síðan þá bara kvöddust menn og reiknuðu ekki með að hittast fyrr en eftir ár.“
Það eru fulltrúar Íslands, Færeyja, Noregs, Bretlands, Evrópusambandsins, Grænlands og Rússlands sem taka þátt í strandríkjaviðræðunum.
Kristján Freyr segir það óneitanlega breyta ýmsu í þessum viðræðum að Bretar hafi yfirgefið Evrópusambandið.
„Eftir Brexit eru Bretar stærsti aðilinn í makríl og farnir að tala sem slíkir á meðan Evrópusambandið hefur misst stóran spón úr aski sínum.“
Getur ekki versnað
Spurður hvort þessi breytta staða flæki viðræðurnar, eða hvort hún einfaldi kannski málin, segir hann:
„Ég held staðan geti alla vega ekki orðið neitt verri heldur en hún var, og á margan hátt skýrari, eins og í tilviki makríls, þarna ertu kominn með stóran aðila inn að borðinu. Í tilviki síldar ertu kominn með Breta sem nýtt strandríki en Evrópusambandið orðið veiðiríki. Þannig að þetta breytir ýmsu og breytir samspili allra þessara þriggja stofna.“
Allt frá árinu 2015 hefur veiði makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar verið 34% yfir ráðgjöfinni, og heildar ofveiði þessara stofna á þessu tímabili var 4,8 milljón tonn.
Vegna þessa voru MSC-sjálfbærnivottanir afturkallaðar og vaxandi þrýstingur hefur verið frá kaupendum sem hóta að hætta að kaupa óvottaðar afurðir frá þessum löndum.