Ævintýralegur árangur náðist í norsku fiskeldi á árinu 2009. Hagnaður í greininni er talinn hafa numið um 5 milljörðum norskra króna eða jafnvirði yfir 100 milljarða íslenskra króna, að því er haft er eftir sérfræðingi DNB Nor Market á sjávarútvegsvefnum Intrafish.
Í upphafi nýliðins árs voru fiskeldismenn kvíðafullir um að efnahagskreppan í heiminum myndi draga stórlega úr eftirspurn eftir eldisfiski og þvi var lögð áhersla á að gera langtímasamninga um sölu afurðanna. Þegar leið á árið kom í ljós að þessar áhyggjur voru ástæðulausar og þegar upp var staðið reyndst árið 2009 það næstbesta í sögunni.
Í kauphöllinni í Ósló hækkuðu hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum meira en flestum öðrum félögum. Þannig hækkuðu bréf í Copeinca um 452% á árinu, í Marine Harvest um 313% og í Austervoll Seafood um 226%.
Í heildina séð var árið 2009 gott ár fyrir norskan sjávarútveg. Afrakstrur af laxeldi og vinnslu uppsjávarfisks varð sérstaklega góður en afkoma hvítfiskvinnslunnar var slæm, sérstaklega vegna verðlækkunar á þorskafurðum.