Mikill uppgangur er nú í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski, norsk-íslenskri síld og makríl. Aflaverðmæti sumra skipa er ævintýri líkast.
Samanlagt aflaverðmæti fimm skipa sem vinna aflann um borð náði um 3 milljörðum króna á þrem mánuðum, samkvæmt samantekt Fiskifrétta.
Hákon EA er með mesta aflaverðmæti uppsjávarskipa í sumar, eða 750 milljónir króna fyrir mánuðina júní, júlí og ágúst. Meðalaflaverðmæti hans er 250 milljónir króna á mánuði.
Aflaverðmæti Hugins VE í júlí náði tæplega 300 milljónum króna. Eftir því sem næst verður komist er þetta hæsta aflaverðmæti íslensks skips í einum mánuði.
Skipting milli makríls og norsk-íslenskrar síldar er mjög misjöfn eftir skipum. Megnið af aflaverðmæti Hákons EA er vegna vinnslu á síld en Huginn VE hefur nær eingöngu unnið makríl um borð.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.