Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða hafa valdið miklu uppnámi í stjórnarflokkunum. Málið var kynnt í ríkisstjórn á þriðjudag í síðustu viku og rætt þar á tveimur ríkisstjórnarfundum. Ákveðið var að taka málið úr höndum Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra og fela það tveimur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þeim Katrínu Jakobsdóttur (VG) og Guðbrandi Hannessyni (S).

Um þetta mál segir Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra á vef ráðuneytisins: ,,Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið lagði um helgina fram á vef sínum vinnuskjöl starfshóps um breytingar á stjórn fiskveiða. Þess misskilnings gætir að um sé að ræða fullbúið stjórnarfrumvarp eða tillögur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Um er að ræða vinnuskjöl sem geta orðið umræðugrundvöllur.

Tveir mánuðir eru nú liðnir frá því Alþingi afhenti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti þær umsagnir sem fram komu vegna frumvarps til nýrra laga um fiskveiðistjórnun frá síðastliðnu vori. Starfshópur fékk það hlutverk að fara yfir umsagnirnar og koma fram með sínar tillögur. Afrakstur af þeirri vinnu eru þau skjöl sem nú liggja fyrir.

Sú ákvörðun að kynna þær almenningi var kynnt í minnisblaði sem lagt var fyrir ríkisstjórn og er í anda opinnar stjórnsýslu og þess gagnsæis sem mælt er fyrir um í yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar.Það er von mín að tillögurnar verði grundvöllur málefnalegrar umræðu um stjórn fiskveiða,” segir Jón Bjarnason.


Fram kemur að í starfshópnum voru Aðalsteinn Baldursson formaður Verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, Atli Gíslason hrl. og alþingismaður, Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri og Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK Sauðárkróki.

Sjá áðurnefnd skjöl á vef sjávarútvegsráðuneytisins.