Vinnslustöðin hf. hefur samið um kaup á meirihluta í fiskvinnslufyrirtækinu Hólmaskeri ehf. í Hafnarfirði, með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Þar segir ennfremur að Hólmasker er í eigu hjónanna Alberts Erlusonar og Jóhönnu Steinunnar Snorradóttur og nýverið keypti félagið rekstur Stakkholts ehf. á sama stað. Allt starfsfólk Stakkholts var ráðið til starfa hjá Hólmaskeri, um 35 manns. Starfsemin verður eftir sem áður í Hafnarfirði og megináhersla lögð áfram á ýsuvinnslu fyrir Bandaríkjamarkað.

Gangi kaupin eftir mun Hólmasker að uppistöðu kaupa ýsu á markaði til vinnslunnar auk þess að kaupa hluta af ýsu af Vinnslustöðinni og öðrum á markaðsverði.

„Mestöll ýsa sem skip Vinnslustöðvarinnar færa að landi hefur annað hvort verið seld á markaði hérlendis eða flutt úr landi í gámum. Ýsan yrði eftir kaupin að hluta flutt frá Eyjum til Hafnarfjarðar og unnin þar.  Hér yrði því stuðlað að því að efla fiskvinnslu á Íslandi“, segir í fréttinni.