Gengið hefur verið frá kaupum á öllu hlutafé í Samey sjálfvirknimiðstöð.  Kaupendur er félagið Samey Holding ehf en á bakvið það standa Bjarni Ármannsson, Kristján Karl Aðalsteinsson og Vygandas Srebalius. Félagið var keypt af frumkvöðlunum sem byggt hafa félagið upp frá árinu 1989 og komið því í leiðandi stöðu á sínu sviði.

Frá þessu er sagt í tilkynningu en r áðgjafi kaupanda var Arion banki og LEX lögmannsstofa og ráðgjafi seljenda var Deloitte á Íslandi.

Í tilkynningunni segir að á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá Samey. Árangur undanfarinna ára hefur verið sérlega marktækur og hefur Samey afhent mörg stór kerfi fyrir laxeldi á Íslandi, Færeyjum og í Noregi. Einnig eru lausnir frá Samey víða í fiskvinnslum landsins og þar má t.d. nefna í nýju hátækni fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík og Brim í Reykjavík.

Kristján Karl mun ásamt Haraldi Þorkelssyni, framkvæmdastjóra félagsins og syni stofnandans mynda framkvæmdastjórn félagsins.