Síðastliðinn fimmtudag var þeim áfanga náð hjá Skinney-Þinganesi á Höfn að 10 þúsund tonn af síldar- og makrílafurðum höfðu verið fryst hjá fyrirtækinu. Aldrei áður hefur jafn mikið af uppsjávarafurðum verið fryst á sumarvertíð.
Öllum afla félagsins, sem á tímabilinu er um 15 þúsund tonn, hefur verið ráðstafað í vinnslu. Aðeins afskurður hefur farið í mjöl og lýsisframleiðslu. Unnið hefur verið sleitulaust á 12 tíma vöktum frá því um miðjan júní. Veiði og vinnsla hafa gengið mjög vel og lýkur þeim í næstu viku, segir á vef Skinneyjar-Þinganess.