Kambur ehf. í Hafnarfirði er fyrsta íslenska fiskvinnslufyrirtækið sem hefur tekið UNO fiskvinnsluvélina frá Vélfagi í notkun og reynslan fyrstu tvo mánuðina er góð, að sögn Hólmars Hinrikssonar, rekstrar- og framleiðslustjóra Kambs. Skrifað var undir samninga um kaup á fyrstu vélinni milli Brims hf., Fiskvinnslunnar Kambs og framleiðanda vélarinnar, Vélfags, á Sjávarútvegsráðstefnunni fyrir ári síðan.
UNO er í raun þrjár vélar í einni og á næsta ári mun hún bjóða upp á fjóra verkþætti. Núna tekur hún við slægðum fiski, flakar hann, sker úr beingarðinn og roðrífur og í næsta fasa mun hún einnig hausa fiskinn. Vélin skilar frá sér flökum sem eru tilbúin í snyrtingu ásamt aukaafurðum. Hún leysir fjölda hefðbundinna starfa í fiskvinnslu af hólmi. Brim hefur forkaupsrétt að fimm vélum alls.
Hráefnisverð hækkað en afurðaverð líka
Kambur ehf. vann áður um 6.000 tonn af fiski á ári, einkum þorski og ýsu, í ferskan fisk og frystan en kvótaniðurskurður varð til þess að gera varð breytingar á starfseminni. Fyrir um það bil ári var ákveðið að Kambur einbeitti sér alfarið að vinnslu á ýsu og allur þorskur færi til vinnslu hjá Brimi í Norðurgarði. Ýsuna fær Kambur frá eigin bát, Kristjáni HF, en einnig frá Særifi SH og Indriða Kristins BA. Sömuleiðis fær Kambur ýsu af ísfisktogurum Brims. Kambur ehf. er 100% í eigu Brims. Þegar þessi breyting var gerð í september 2023 var starfsmönnum Kambs fækkað en nú stefnir í að þeir verði jafnmargir og fyrir breytinguna, þ.e. um 40 manns. Hólmar segir að umbreytingin hafi gengið vonum framar og stefni allt í að unnið verði úr um 4.000 tonnum af ýsu á þessu ári. Hann segir að um 40% hráefnisins sé fengið á mörkuðum og það setji framlegðinni vissulega nokkrar skorður því hráefnisverð hefur verið með hæsta móti en á móti komi að afurðaverð hafi hækkað verulega einnig. Framleidd er fersk og fryst ýsa, jafnt inn á Bandaríkjamarkað og Evrópu.
Sýningargluggi fyrir UNO-vélina
Kambur er í þróunarsamstarfi með Vélfagi með UNO-vélina. Það hefur staðið yfir strax frá því að sumarleyfum lauk. Síðustu tvær til þrjár vikur hefur vélin verið í fullri vinnslu. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel þótt vissulega þurfi að sníða af örlitla vankanta eins og eðlilegt er með nýja tækni. En okkur líður mjög vel með UNO-vélina í gangi núna og hún er að skila mjög ásættanlegum árangri. Nýtingarhlutfallið hefur verið gott en það vantar enn dálítinn stöðugleika en þetta er mjög nálægt því að vera í höfn, þ.e.a.s. þessi fyrsti fasi. Á næsta ári bætist við annar fasi í vélina sem er hausun. Þar með verður einungis einn starfsmaður við vélina sem hausar, flakar, beinhreinsar og roðrífur,“ segir Hólmar.
Hann segir að vélin mun leysa af hólmi nokkur stöðugildi auk þess sem hún auðveldi mjög alla vinnu við snyrtingu á flæðilínunni. „Með UNO-vélinni er alveg hægt að tala um byltingu í fiskvinnslu og það eru margir að fylgjast með framvindunni hjá okkur. Við erum nokkurs konar sýningargluggi fyrir UNO-vélina núna eins og ráð var fyrir gert í samstarfssamningnum. Í samningnum er forkaupsréttur á fimm öðrum vélum sem Brim og tengd félög eiga kost á að kaupa. Mér finnst líklegt að fleiri vélar bætist við miðað við hvernig þetta hefur gengið.“