Nýtt félag hefur tekið við starfsemi Perlufisks á Bíldudal. Um 15 manns vinna í fiskvinnslunni fyrir utan beitningarmenn og sjómenn, en fjórir bátar hafa landað afla til vinnslunnar, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Félagið sem hér um ræðir heitir Arnfirðingur ehf. og er það í eigu Hólmgríms S. Sigvaldasonar, útgerðarmanns Grímsness GK en báturinn hefur við þessar breytingar fengið einkennisstafina BA.
Starfsemi Perlufisks lá niðri í sumar en vinna í húsinu hófst aftur í byrjun október. Grímsnes BA-555 hefur landað afla sínum fjórum sinnum á Bíldudal. Línubáturinn Arney HU hefur einnig landað þar í haust auk smábátanna Ólafs HF og Skvettu SK. Arnfirðingur ehf. leigir þrjá síðastnefndu bátana og gerir þá út.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.