Á næsta ári mun fyrirtæki á Spáni sem sérhæfir sig í veiðum og áframeldi á bláuggatúnfiski snúa sér jafnframt að ferðaþjónustu. Um er að ræða skoðunarferðir um eldisstöðina og einnig verður ferðamönnum boðið að taka sundsprett innan um túnfiskana.
Fyrirtækið sem hér um ræðir heitir Balfegó Group. Það hefur nú þegar varið einni milljón evra (um 158 milljónum ISK) í smíði á skipi sem getur tekið um 60 farþega. Talsmenn fyrirtækisins segja að þetta verkefni muni skapa þeim tekjur en ekki síður auka gegnsæi varðandi túnfiskeldið og hrekja meintar rangfærslur um hvernig staðið sé að túnfiskveiðum. Því sé ætlað að bæta ímynd túnfiskiðnaðarins. Fyrirtækið gerir ráð fyrir því að um 7 þúsund manns muni koma í þessar skoðunarferðir í hverjum mánuði sem skili því um 350 þúsund evrum í tekjur (5,5 milljónum ISK).
Árleg velta Balfegó Group af túnfiskveiðum og eldi er um 28 milljónir evra (4,5 milljarðar ISK). Fyrirtækið gerir út fjögur af sex skipum á Spáni sem veiða túnfisk.