„Leikmenn keppast um að byggja upp útgerðarveldi með því að sigla kringum landið, sækja miðin, selja afla og klekkja hvor á öðrum. Á leiðinni getur allt gerst því á hverju horni leynast óvæntir gestir og norskir útgerðarmenn, Grænfriðungar og tíð ríkisstjórnarskipti valda usla í landi aflaklónna.“

Þannig lýsir Bjarki Vigfússon nýju útvegsspili sem er eins konar blanda af gamla Útvegsspilinu og Hættuspili. Bjarki segir spilið þó alls ekki einungis fyrir þá sem hafa vit og áhuga á sjómennsku. Þetta sé fyrst og fremst hugsað sem skemmtispil fyrir fólk á öllum aldri.

Bjarki er höfundur spilsins ásamt Hauki Má Gestssyni og Milju Korpola. Öll starfa þau hjá Íslenska sjávarklasanum en hafa unnið að spilinu í hjáverkum síðastliðna mánuði. Spilið er fullhannað en er nú í svokallaðri hópfjármögnun á vefsíðunni Karolina Fund.

Í því felst að áhugasömum er boðið að kaupa spilið á netinu áður en það fer í framleiðslu. Fáist nægilega  margir til að kaupa spilið verður það fé nýtt til að fjármagna framleiðslu spilsins. Fáist ekki nægilega há upphæð fá allir endurgreitt. Því er ekki um styrka að ræða heldur er þetta eins konar forsala.