Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar, notaði tækifærið þegar hún gegndi varaþingmennsku og endurflutti frumvarp sitt frá í fyrra, nokkuð breytt.

Frumvarpinu er „ætlað að tryggja strandveiðar í 48 veiðidaga frá og með árinu 2022 með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Er þessari aðgerð fyrst og fremst ætlað að efla sjávarbyggðir um land allt, auka framboð á fiski frá dagróðrabátum og vinna gegn atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru“, að því er segir í greinargerð.

Lagt er til að „frádráttur frá úthlutuðu aflamarki til uppsjávarskipa verði 10,3% í stað 5,3% eins og verið hefur.“ Áfram verði 5,3% dregin frá í öðrum tegundum.

Lilja vísar til þess að 8.500 tonna veiðiheimildir muni varla tryggja veiðar til ágústloka. Líklegt sé að kvótinn dugi aðeins til 20. júlí. Síðustu tvö árin hafi 10.000 tonna kvóti ekki dugað og þurfti að auka verulega við bæði árin.

Fagna frumvarpinu

Bæði Strandveiðifélagið Krókur á Barðaströnd og Smábátafélagið Hrollaugur á Höfn í Hornafirði hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við frumvarp Lilju Rafneyjar.

„Það er trú okkar að frumvarpið stuðli að meiri sátt um íslenskan sjávarútveg og veiti sanngjarnan aðgang að auðlind okkar, skapi sátt og rekstraröryggi meðal strandveiðisjómanna,“ segir í yfirlýsingu frá Króki.

Hrollaugur segir frumvarpið stuðla að „sanngirni í íslenskum sjávarútvegi, bættum mannréttindum á Íslandi, eflingu búsetuskilyrða allt í kringum landið og raunverulegu tækifæri fyrir nýjar kynslóðir að koma inn í íslenskan sjávarútveg“.

Frjálsar veiðar

Frumvarp Björns Leví hefur síðan það markmið „að handfæraveiðar við Íslandsstrendur verði gefnar frjálsar til að bæta aðstæður til strandveiða og taka tillit til efnahagslegra sjónarmiða sem og umhverfisþátta,“ að því er segir í greinargerð.

„Í ljósi þess að heildarafli strandveiða hefur frá árinu 2009 að jafnaði verið 2–4% af heildarafla alls íslenska flotans innan hvers fiskveiðiárs er ekki talið að frjálsar strandveiðar hafi teljandi áhrif á stofnstærð fisktegunda við strendur Íslands.“