Einn af frumherjum í makrílveiðum Norðmanna telur að Norðmenn hafi leikið hrapalega af sér á sínum tíma í samningum við ESB um skiptingu makrílkvótans. Hann telur að Norðmenn eigi að krefjast 50% af heildarkvóta í markríl, segja skilið við ESB en taka þess í stað höndum saman við Ísland og Færeyjar í makríldeilunni. Þannig geti Noregur endurheimt sinn réttmæta skerf í makrílkvótanum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Jostein Störksen, sjötugur smábátasjómaður í Noregi, var með þeim fyrstu sem veiddu makríl í norskri lögsögu. Hann segir í samtali við FiskeribladetFiskaren að ESB fái alltof stóra sneið af kökunn. Þegar samið var um skiptingu kvótans á áttunda áratugnum var miðað við veiðireynslu síðustu þriggja ára sem var óhagstæð Norðmönnum. Í hlut ESB komu 60% kvótans en Norðmenn máttu sætta sig við 25%. Störkesen segir að þessi hlutföll endurspegli engan veginn veiðireynslu árin fyrir viðmiðunarárin og alls ekki dreifingu makríls undanfarin ár.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.