Bresk samtök sem berjast gegn hvalveiðum hafa þrýst á fyrirtækið Warners Fish Merchants Ltd í Doncaster að hætta kaupum á fiski frá HB-Granda vegna þess að fyrirtækið hafi tengsl við Hval hf. Þetta kemur fram í frétt á vef Morgunblaðsins þar sem vitnað er í umfjöllun breska blaðsins Independent .
Rætt er þar við Clare Perry, sem er í forsvari fyrir samtök sem nefna sig Environmental Investigation Agency. Fram kemur í blaðinu að Warners Fish Merchants Ltd selji um 8% af öllum fiski sem Bretar neyta. Fyrirtækið kaupi m.a. fisk frá HB-Granda, ein einn af eigendum HB-Granda er Kristján Loftsson, forstjóri Hvals.
Haft er eftir Perry að neytendur í Bretlandi beri hag hvala og höfrunga fyrir brjósti og hugsi með hryllingi til þess ef þeir séu með því að kaupa fisk af fyrirtækinu að auka hagnað manna sem stunda hvalveiðar. Hún segir að Warners og aðrir fiskkaupendur á Bretlandi eigi að tryggja að þau kaupi ekki fisk af íslenskum fyrirtækjum sem tengjast hvalveiðum.