Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra segir á Alþingi í skriflegu svari við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur um álit auðlindanefndar frá árinu 2000 að taka ætti auðlindaákvæði upp í stjórnarskrá. Vestfirski vefmiðillinn www.bb.is segir frá.

Segir ráðherra í svarinu að í því auðlindaákvæði þurfi að vera skýrt að enginn geti fengið auðlindir í eigu þjóðarinnar til varanlegra afnota eða eignar. „Í framhaldi af því þyrfti að útfæra betur í lögum um stjórn fiskveiða til hve langs tíma hægt er að fá afnotarétt af auðlindum í eigu þjóðar. Rétt er að taka fram að auðlindanefnd tilgreindi tvær mismunandi leiðir til þess, hina svokölluðu fyrningarleið annars vegar og veiðigjaldsleið hins vegar.“

Ráðherrann telur rétt að kveða á um nánari útfærslu á ákvæðinu um heimild til afnota eða nýtingar á auðlindinni í lögum en ekki í stjórnarskrá. „Í dag er réttarstaðan sú að aflaheimildir eru aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 6. apríl 2000 í máli nr. 12/2000.“ segir í svari matvælaráðherra.