Norska ríkisstjórnin leggur til í fjárlagafrumvarpi sínu fyrir næsta ár að ríkisstyrki til selveiða verði afnumdir, en styrkirnir hafa haldið lífinu í þessari veiðigrein. Á þessu ári og því síðasta nam styrkurinn sem svarar 200 milljónum íslenskra króna hvort ár.
Talsmaður samtaka norska útgerðarmanna, Audun Maråk, mótmælir þessum áformum og segir ófært að kippa styrkjunum til baka á einni nóttu og án samráðs við atvinnugreinina.
Hann bendir á að mikilvægt sé að nýta sjávarspendýr til þess að halda stofnunum í skefjum og upplýsir að þessi dýr éti tvöfalt meira af fiski en sem nemur veiðum í NA-Atlantshafi.
Selveiðar Norðmanna hafa verið stundaðar á tveimur svæðum, annars vegar í Vesturísnum svokallað djúpt norður af Íslandi milli Jan Mayen og Grænlands og hins vegar í Austurísnum, í austanverðu Barentshafi. Fá skip hafa þessar veiðar í seinni tíð, aðeins fjögur skip í fyrra. Leyft hefur verið að veiða 25.000 seli í Vesturísnum en 7.000 dýr í Austurísnum. Á síðasta ári voru veiddir um 16.000 selir í Vesturísnum en ekkert dýr í Austurísnum.