Danskur þingmaður á Evrópuþinginu vill að ESB beiti Noreg viðskiptaþvingunum í deilunni um veiðiréttindi í Skagerrak.
Slitnað hefur upp úr viðræðum Noregs og ESB um veiðar í Skagerrak og víðar. Á meðan fá danskir sjómenn ekki aðgang að hefðbundnum miðum í norskri lögsögu sem þeir hafa nýtt til veiða úr sameiginlegum stofnum.
Jens Rohde, þingmaður á Evrópuþinginu fyrir Venstre-flokkinn í Danmörk, sakar Norðmenn um að draga lappirnar gagngert til að láta tímann vinna með sér og takmarka veiðar danskra fiskimanna. Hann segir að nú sé kominn tími til að ESB láti í sér heyra svo eftir verði tekið og stöðvi þennan yfirgang Norðmanna í eitt skipti fyrir öll.
„Markaðurinn í ESB er miklu stærri en sá norski. Ef við fáum ekki aðgang að fiskimiðum við Noreg þá verður ESB að íhuga viðeigandi refsiaðgerðir á norskan fiskiðnað,“ segir Jens Rohde. Hann hefur komið tilmælum sínum áleiðis til danska matvælaráðherrans og til framkvæmdastjórnar ESB.
Hann segir ennfremur ólíðandi að land utan ESB skuli geta ráðskast með sambandið og skaðað með því hagsmuni mörg þúsund manna í dönskum sjávarútvegi.