Í dag hefst nýtt alþjóðlegt samstarf gegn fiskveiðiglæpum en að því standa Noregur, Bretland, Þýskaland, Holland, Írland, Danmörk og Ísland. Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna og er sagt að Norðmenn hafi átt frumkvæðið að samstarfinu.
Haft er eftir norska sjávarútvegsráðherranum, Elisabeth Aspaker, að til þess að berjast gegn fiskveiðiglæpum þurfi að horfa á alla virðiskeðjuna. Takmarkið sé að ná höfuðpaurunum, ekki bara skipunum þeirra. Til þess þurfi að vinna þvert á lönd og landamæri.
Ólöglegar veiðar og verslun með sjávarfang sé ekki bara ógnun við fiskistofnana heldur grunnurinn að gríðarlegum umsvifum í svartri atvinnustarfsemi. Með samstarfi yfirvalda á sviði sjávarútvegs, tollamála og skattamála megi styrkja upplýsingagjöf um alla þætti málanna, allt frá ólöglegum veiðum til ólöglegra fjármagnsflutninga þeim tengdum.
Talið er að verðmæti fisks úr ólöglegum veiðum í heiminum öllum nemi 2.750 milljörðum íslenskra króna.